Wednesday, March 07, 2012

Bréf til flokksráðsmanna Sjálfstæðisflokksins í mars 2012.
Nafn mitt er Aldís Hafsteinsdóttir. Ég býð mig fram í embætti 2. varaformanns Sjálfstæðisflokksins. Áralöng reynsla mín af sveitarstjórnarmálum og starfi innan flokksins myndi að mínu mati nýtast Sjálfstæðismönnum og því óska ég eftir stuðningi þínum í kosningunni sem fram fer á fundi Flokksráðs í Kópavogi þann 17. mars n.k.

Reynsla og þekking Störf að sveitarstjórnarmálum tryggja yfirgripsmikla þekkingu og innsýn í þau mál sem hvað næst eru íbúum í landinu. Þegar kemur að því að bæta við forystu Sjálfstæðisflokksins þykir mörgum eðlilegt að horft sé til sveitarstjórnarmanna enda væri þá verið að breikka forystuna og auka tengslin við þennan stóra hóp sem svo sannarlega sinnir viðamiklum og mikilvægum störfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Síðastliðin 14 ár hef ég setið í bæjarstjórn Hveragerðis. Í dag gegni ég starfi bæjarstjóra en í vor verða liðin 6 ár frá því ég tók við því embætti. Ég hef gegnt fjölda trúnaðarstarfa fyrir bæjarfélagið, fyrir samtök Sunnlenskra sveitarfélaga, fyrir sveitarfélögin á landsvísu og fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Ég er formaður sveitarstjórnarráðs Sjálfstæðisflokksins og sit í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga auk þess að hafa tekið að mér fjölda annarra verkefna á sviði sveitarstjórnarmála. Flokksfélagar mínir hafa treyst mér til ábyrgðarstarfa og fyrir það er ég þakklát.

Fulltrúa sveitarstjórnarstigsins í forystuna Þín bíður nú það vandasama verkefni af velja í fyrsta sinn 2. varaformann Sjálfstæðisflokksins. Ákvörðun um að stofna til þessa embættis var tekin á landsfundi í nóvember 2011. Eitt helsta verkefni nýs 2. varaformanns er að hafa yfirumsjón með öllu innra starfi flokksins. Það er verkefni sem ég tel að ég hafi reynslu og getu til að sinna. Með vali á reynslumiklum sveitarstjórnarmanni í embætti 2. varaformanns myndi Sjálfstæðisflokkurinn sýna vilja til breytinga og vilja til að fela aðila úr öðru stjórnsýslustigi ábyrgð. Sýnum það að við metum einstaklinginn á hans eigin forsendum, metum störf og árangur. Ég bið um stuðning þinn þann 17. mars næstkomandi.

Aldís Hafsteinsdóttir

Sunday, April 25, 2010

80 ára afmæli Bjarna Haraldssonar, kaupmanns á Sauðárkróki

Elsku Bjarni, kæru ættingjar og vinir!

Það er mér bæði ljúft og skylt að standa upp í veislunni þinni, Bjarni minn, og flytja þér nokkur orð fyrir hönd okkar Lárusar og barna okkar.

Þú hefur verið órjúfanlegur hluti af lífinu frá því að ég kom inní þessa fjölskyldu fyrir tuttugu og fjórum árum síðan. Stuttu áður höfðuð þið Dísa hafið búskap og því þekki ég engan annan tengdaföður en þig og börnin okkar Lárusar engan annan föðurafa heldur. Betri afa er vart hægt að hugsa sér. Öll hafa krakkarnir notið þess að fá að heimsækja og dvelja hjá afa og ömmu um lengri eða skemmri tíma.

Óneitanlega tvinnast verslunin saman við einkalífið því eins og allir vita þá búa þau hjón í búðinni og afi Bjarni hefur hreinlega búið í búðinni alla tíð. Þegar ég var að setja saman þessa punkta þá spurði ég þá Bjarna yngri og Albert hvað væri eftirminnilegast frá heimsóknunum norður. Þeir töluðu báðir um búðina. Um þá ævintýraveröld sem leynist í kjallaranum og hversu gaman það er að fá að afgreiða. Það væri allt svo rosalega persónulegt hjá afa og ömmu. Það að koma í búðina væri ekki venjuleg verslunarferð heldur er það frekar eins og heimsókn, börn jafnt sem gamalmenni eru boðin sérstaklega velkomin og kaffisopinn býður alltaf inná kontórnum.


Eftir því sem árin hafa liðið hef ég betur skilið þá sérstöðu sem Bjarni og verslunin nýtur. Ekki bara á Króknum heldur á Norðurlandi já og jafnvel landinu öllu. Allir þekkja búðina og verslunarmanninn við Aðalgötuna.

Ég hef stolt nýtt tengslin í viðræðum við hina ýmsu aðila sem allir bera mikla virðingu fyrir kaupmanninum á Króknum. Við Bjarni erum nefnilega tengd fleiri böndum en bara fjölskylduböndum. Við eigum okkur sameiginlega lífssýn sem lýtur að því að hver einstaklingur fái að njóta sín og framtakssemi og dugur sé sett framar öðrum gildum.

Til heiðurs þessum gildum höfum við setið saman ófáa landsfundi Sjálfstæðisflokksins, alltaf finnum við okkur tíma frá fundahöldum til að setjast inná kaffistofuna og spjalla um landsins gagn og nauðsynjar. Í þeim félagsskap hef ég líka kynnst Skagfirðingum sem ég verð að viðurkenna að eru venju fremur skemmtilegt fólk. Þetta er erfitt fyrir Sunnlendinginn að þurfa að viðurkenna en einhvern veginn eruð þið Skagfirðingar öðru vísi þenkjandi en við hin.


Stundum er talað um Flóamennsku, framtaksleysi og ákvarðanafælni okkar sunnanmanna. Eiginleikar sem ég reyndar mótmæli harðlega! En sem andstæðu við það má allavega tefla fram sjálfsöryggi og þjóðrembu ykkar Skagfirðinga. Ég hef ekki ósjaldan strítt honum Lárusi á þessu og gleymi ekki í fyrsta sinn þegar ég fór á tónleika með Skagfirsku söngsveitinni og Skín við sólu Skagafjörður hljómaði um Hallgrímskirkju og allir Skagfirðingar sem voru viðstaddir ruku á fætur til að heilla þjóðsöng síns héraðs. Þetta sæji maður nú ekki víða...

En fyrirrennari minn í embætti bæjarstjóra í Hveragerði kom héðan að norða og heitir Orri Hlöðversson. Hann sagði mér frábæra sögu af viðskiptum sínum við Bjarna Har. Þannig var að Orri sem kominn er af miklu Samfylkingarfólki var ekki búinn að búa lengi hér á Króknum þegar hann var orðinn Framsóknarmaður, en það er eitthvað sem virðist vera bráð smitandi hér á staðnum :-)

Orri eins og aðrir sótti mjög í harðfiskinn hjá Bjarna sem er óvanalega góður eins og allir vita. Einu sinni sem oftar kemur Orri í búðina til að kaupa þetta góðgæti. Í þetta skipti þurfti Bjarni að fara oní kjallara til að ná í harðfiskinn og það tók nokkra stund. Borgaði Orri síðan fiskinn og fór með hann heim. Þegar hann ætlaði síðan að fara að gæða sér á flökunum tók hann eftir því að hvert og einasta þeirra hafði verið merkt með stórum stöfum XD, þetta hafði Bjarni þá verið að dunda sér við í kjallaranum á meðan að atvinnufulltrúinn beið í búðinni...


En svona er Bjarni fullur af skemmtilegum uppátækjum. Þau Dísa koma nokkuð oft til okkar í Hveragerði en stoppa þó sjaldnast nógu lengi að því að okkur finnst. Ekki hefur hann Bjarni þó setið lengi þegar hann býður karlpeningnum út að rúnta og ekki bregst hvert er farið. Bílasölurnar á Selfossi eru eins og segulstál á Bjarna en eins og allir vita eru bílar hans ær og kýr.

Nú nýverið bauð hann tveimur öldruðum konum með sér í bíltúr frá Hveragerði, móður minni og Dísu. OG hvert haldið þið að hafi verið farið. Nú á bílasölur í Reykjavík, þeim væntanlega til ómældrar gleði. En Bjarni afi er einstakur öðlingur, það er tilhlökkunarefni að koma norður og það er tilhlökkunarefni þegar þið Dísa heimsækið okkur suður.

Ég vona og veit að samverustundir okkar eiga eftir að verða margar og góðar. Ég á föðurbróður sem er nú ekki bjartsýnni en svo að hann lýtur á hvert ár eftir sjötugt sem bónus. Nú ert þú Bjarni minni með 10 ár í Bónus. Megi bónusinn verða að lágmarki tuttugu ár í viðbót þannig að samverustundir okkar allra við "Gamla Bónusinn" á Króknum muni verða fjölmargar á næstu árum. Við Lárus og börnin okkar öll færum þér og Dísu innilegar hamingjuóskir í tilefni af 80 ára afmælinu þínu.


Hveragerði 24. apríl 2010

Aldís Hafsteinsdóttir

Flutt í tilefni af 80 ára afmæli Bjarna Haraldssonar, kaupmanns á Sauðárkróki.

Sunday, January 31, 2010

70 ára afmæli Laufeyjar S. Valdimarsdóttur þann 30. janúar 2010.

Veislustjóri, elsku mamma, kæru ættingjar og vinir!

"Mamma halt´ í hendi" er setning sem ég notaði mikið og oft þegar ég var lítil. En ég gat aldrei sofnað á kvöldin án þess að mamma sæti við rúmstokkinn og héldi í hendina á mér. Laumaði ég þá litlum lófa út um rimlana á rimlarúminu og mamma hélt í hendina á mér þar til Óli Lokbrá sá til þess að unga daman svæfi vært. Án þessa gat ég ekki sofnað.

Með einum eða öðrum hætti hefur mamma haldið í hendina á mér alla tíð síðan. Og ekki bara mér heldur okkur systkininunum öllum, tengdabörnum og barnabörnum.

Þú hefur verið kletturinn í tilverunni. Hjá þér höfum við öll alltaf átt skjól og vísa hlýju þegar við höfum þurft á því að halda. Slíkt er ómetanlegt og fyrir það viljum við þakka hér í kvöld með þessu óvænta afmælisboði sem þú hélst reyndar að væri aðeins minna og fámennara en síðan varð raunin.

Það er reyndar engu hægt að leyna fyrir þér því þó að þú haldir því fram að við systur séum forvitnari en þú, þá er það hreint ekki rétt! Allavega varstu alveg friðlaus þangað til að þér tókst að draga það uppúr Sibbu að systkini þín yrðu hér í kvöld. Ég vona að okkur hafi síðan tekist að koma þér gleðilega á óvart með hópnum sem hér er mættur til að samfagna 70 ára afmælinu þínu. Ég efast ekki um að við eigum eftir að eiga hér góða og skemmtilega kvöldstund.

En undanfarið er mikið búið að ræða um Icesave, atkvæðagreiðslur, kreppur og aðra óáran. Einhvern veginn held ég að þegar maður hefur lifað og hrærst í íslensku samfélagi undanfarin 70 ár þá séu umkvörtunarefni dagsins í dag ansi léttvæg í samanburði við margt það sem þín kynslóð ólst upp við.

Þið systkinin í Hreiðri alist upp í litlum bæ þar sem í eldhúsinu stóð kolaeldavél sem hitaði upp bæinn. Þegar kólnaði á veturna var illa hægt að sofa á loftinu vegna frosts og kulda og þá sváfu allir saman í pínulítilli stofunni en innaf henni var enn minna kames sem í dag félli varla undir skilgreininguna herbergi. Salernisaðstaðan var utandyra í formi kamars og ég get ekki einu sinni gert mér í hugarlund hvað það hefur oft verið nöturlegt á veturna. Vatn var sótt í brunn neðan bæjarins og rafmagn kom ekki í bæinn fyrr en seint og um síðir svo notast var við olíulampa til lýsingar meðal annars einn forláta Aladdín lampa sem lengi vakti aðdáun okkar systkinanna á Þelamörkinni.

Ég á bágt með að gera mér í hugarlund þær aðstæður sem Guðrún amma og Valdimar afi bjuggu við þegar þið systkinin voruð að alast upp. Fimm börn á innan við tíu árum og jörðin engin sérstök kostajörð. Allar stundir dagsins lagðar undir vinnu og börnunum falin ábyrgð sem engum dytti til hugar í dag. Mamma hefur sagt okkur frá því að þegar hún var 4 ára hafi hún passað Jónu systur sína heima í Hreiðri á meðan afi og amma heyjuðu engjarnar. Ef eitthvað kæmi uppá átti hún að breiða lak út á bæjarhlaðið og þá kæmi amma hlaupandi.

Haukur hennar Guðrúnar er orðinn 5 ára og engum dytti til hugar að ætlast til þess að hann passaði barn.
Haukur er settur í pössun ...

Sögurnar frá Hreiðri voru margsagðar í æsku okkar systkinanna og okkar börn þekkja þær síðan örugglega jafnvel. Sögur af Vind gamla! Þegar amma datt í dýið! ...og sögurnar af álfunum í Bjallanum. Þetta eru sögur sem ásamt sögunni af pabba þegar hann datt í skurðinn á leið til kirkju að Laugardælum hafa lifað með okkur systkinunum og munu lifa áfram með okkar börnum.

En börnin fyrir tæpum 70 árum voru alin upp við allt allt önnur kjör og aðra lifnaðarhætti heldur en börn í dag. Þú og þín kynslóð, mamma, er kynslóðin sem fleygði Íslandi áfram. Þið eruð dugnaðarforkarnir sem byggðuð upp þetta land og tryggðuð okkur afkomendum ykkar lífsgæði sem varla finnast betri á byggðu bóli, og það þrátt fyrir allar kreppur. Reyndar verð ég nú líka að segja að aldamótakynslóðin, en henni tilheyra afar mínir og ömmur, á auðvitað líka sinn skerf í því þjóðfélagi sem við búum í í dag. Sumir hafa gengið svo langt að halda því fram að ég og mín kynslóð höfum síðan eyðilagt allt sem þið byggðuð upp, en vonandi er það nú ekki svo slæmt!

Ég sagði við systkini mín að þessi ræða yrði eins og minningargrein og við það situr. Ég held reyndar að það sé nú bara ekki svo slæmt að heyra svolitla lofrullu um sig á meðan maður enn getur notið hróssins þannig að svoleiðis verður það í kvöld.

En maður finnur það alltaf betur og betur með árunum hversu mikil áhrif uppeldið hefur á hvern einstakling. Við systkinin fengum gott uppeldi hjá yndislegum foreldrum sem vildu allt fyrir okkur gera. Það þýddi aftur á móti ekki að við fengjum allt sem við vildum, langt í frá. Við fengum sjálfsagt í fleiri skipti ekki að gera það sem við vildum heldur en hitt!

En við vorum látin vinna og hjálpa til og okkur þótti það sjálfsagt. Við hjálpuðum pabba við að keyra út ísblöndu um helgar og byrjuðum að vinna í ísgerðinni eiginlega löngu áður en við höfðum aldur til. Á laugardögum vorum við öll sett í að þrífa og mitt hlutverk var yfirleitt að þrífa baðherbergin. Enn í dag þykir mér það skemmtilegast. Eins og þetta hefði ekki verið nóg þá man ég í fljótu bragði eftir að við vorum líka látin þrífa kirkjuna með Möggu í Grein, bera út Suðurland fyrir Sjálfstæðisflokkinn, selja jóladagatöl og ljósaperur fyrir Lions klúbbinn ásamt því að reka rollurnar útúr bæjargirðingunni. Skyldi engan undra að við yrðum frekar félagslega þenkjandi eftir þessa þegnskylduvinnu.

En ýmislegt gekk auðvitað á á stóru heimili eins og gengur og gerist. Tengdasynir og tengdadóttir fluttu inn á Þelamörkina frekar snemma svona miðað við aldur barnanna og skyndilega var húsið orðið fullt af barnabörnum. Þau eru núna 10 og það ellefta á leiðinni eins og svo greinilega má sjá.

Og nú eru komin til sögunnar tengdabarnabörn og ég efast ekki um að þú átt eftir að upplifa langömmubörn og jafnvel langalangömmubörn svona miðað við það hvað þú ert ungleg og spræk.

Við systur segjum stundum við tengdasyni þína að þeir verði að gera sér grein fyrir því að þeir hafa verið einstaklega heppnir í makavali. Þrátt fyrir þokkalegt sjálfstraust þá segjum við þetta nú ekki vegna okkar kosta heldur þinna, mamma. Þessir mannkostir sjáist nefnilega allra best á mömmu... Er ekki sagt að karlmenn skuli skoða vel tilvonandi tengdamóður sína því henni komi dæturnar til með að líkjast. Ég held ég tali fyrir hönd okkar allra þegar ég segi að ég vona svo sannarlega að við, afkomendur þínir, líkjumst þér og pabba. Því það er ekki leiðum að líkjast.

En elsku mamma við systkinin viljum með þessum orðum óska þér innilega til hamingju með afmælið um leið og við vonum að við getum öll átt fjölmörg frábær ár saman í framtíðinni þannig að áfram getum við þegar mikið liggur við lætt lófanum í hendi þína með orðunum "mamma halt´ í hendi" .....Aldís Hafsteinsdóttir
30. janúar 2010

Tuesday, January 26, 2010

Grein í Hverafuglinn í lok janúar 2010

Ágætu bæjarbúar!

Það ber ekki góðum málstað vitni að hagræða sannleikanum eins og bæjarfulltrúar A-listans gera í síðasta tölublaði Hverafuglsins. Ekki verður hér elt ólar við málflutninginn en þó er mér bæði rétt og skylt að benda sérstaklega á að þegar bornar eru saman tölur milli ára og tala nú ekki um þegar tímabilin sem borin eru saman telja mörg ár þá ber að núvirða allar stærðir. Í því felst að tölurnar eru gerðar samanburðarhæfar og þannig er hægt að vinna úr þeim með réttum hætti. Ég trúi því ekki að Róbert Hlöðversson hafi vísvitandi sett töfluna sína yfir skuldir bæjarins upp með röngum hætti heldur hafi hann ekki vitað betur. Því ef hann veit betur þá er málflutningur hans ekki boðlegur Hvergerðingum.
Í grein minni í síðasta tölublaði var spurningum ritstjóra svarað með eins greinargóðum hætti og nokkur tök voru á. Ef lesendur Hverafuglsins vilja kynna sér fjárhag bæjarins til hlýtar þá er fjárhagsáætlun og greinargerð sem henni fylgir öllum opin á heimasíðu bæjarins. Á heimasíðunni má einnig finna ársreikninga sveitarfélagsins frá árinu 2004. Hvet ég áhugasama til að kynna sér vel þær staðreyndir sem þar koma fram.
Stundum er haft á orði að ekki borgi sig að kasta steinum úr glerhýsi. Það orðtak hefur flögraði að mér við lestur greinanna sem komið hafa frá minnihlutamönnum í bæjarstjórn undanfarið. Það væri áhugavert að fara betur yfir fjármálastjórn þessara flokka síðasta kjörtímabil. Ætli bæjarbúar geri sér grein fyrir því að greiðslur bæjarfélagsins vegna húsnæðisins í Sunnumörkinni nema um 40 milljónir í ár? Upphæð sem er jöfn öllu framlagi bæjarins til rekstrar skólavistunar, heimilishjálparinnar, félagsmiðstöðvar ungmenna, kostnaði við dagmæður og vinnuskólans í heild sinni. Húsakynni Sunnumarkar standa reyndar alveg fyrir sínu og sú þjónusta sem þar er veitt er framúrskarandi en samningurinn sem bærinn gerði á sínum tíma er óforsvaranlegur eins og reyndar var þráfaldlega bent á á sínum tíma. Samningurinn er til 25 ára, óuppsegjanlegur og verðtryggður. Í honum felast stærstu einstöku skuldbindingar bæjarfélagsins í dag.
Ýmis mál sem tengjast fjármálastjórn A-listans væri hægt að rifja upp á næstu misserum þó að kosningabaráttan sem senn fer í hönd ætti heldur að snúast um það sem vel hefur verið gert í bæjarfélaginu undanfarin ár. Hversu ánægðir bæjarbúar eru og hvaða sýn við öll höfum til framtíðar. Það er ljóst að með öllum tiltækum ráðum verður að auka tekjur bæjarfélagsins. Það gerum við best með því að laða nýja íbúa til bæjarins og að tryggja að þeir sem hér eru fyrir séu ánægðir með þá þjónustu og það umhverfi sem hér er og vilji hvergi annars staðar vera. Hér verður að leggja enn meiri áherslu á fjölga störfum og fá hingað fjölbreyttari atvinnu. Við höfum undanfarið lagt áherslu á að vernda störfin og teljum að það hafi tekist. Hér munum við leggja áherslu á áframhaldandi uppbyggingu á þeim sviðum þar sem við erum sterkust en það ætti að vera okkur öllum leiðarljós til framtíðar.

Aldís Hafsteinsdóttir
bæjarstjóri

Monday, November 02, 2009

Lokaorð /samantekt á Skólamálaráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga
2. nóvember 2009

Fundarstjórar, ágætu fundarmenn!

Ég er viss um að þegar þið lituð á dagskrána þá hafið þið tekið andköf yfir því að þurfa nú að hlusta á mig flytja samantekt um dagskrá dagsins í heilar 30 mínútur. Vel að merkja ég saup líka hveljur þegar ég sá þennan tíma sem mér var úthlutaður. Því held ég að ég geti nú lofað ykkur þvi að ég mun ekki fullnýta tímann svo við komumst öll fyrr heim.

En, það hefur verið sérlega ánægjulegt að vera þátttakandi í ráðstefnunni hér í dag. Starfsmenn Sambands Íslenskra sveitarfélaga undirbjuggu innihaldsríka dagskrá sem fyllilega hefur staðist þær væntingar sem við höfðum til dagsins. Fyrir mig sem sveitarstjórnarmann er ávallt áhugavert að heyra mismunandi sjónarmið og sérstaklega í þeim málaflokki sem stærstur er í rekstri sveitarfélaganna, fræðslumálum.

Samband íslenskra sveitarfélaga samþykkti skólamálastefnu fyrir rétt tæpum tveimur árum síðan. Stefnu sem markar þá sýn sem sveitarfélögin hafa við rekstur og uppbyggingu skólastarfs. Í stefnunni er sett fram það leiðarljós að menntun, mannvirðing og mannúð séu þar lykilhugtök. Sameiginlega samþykktum við að búa börnum sem best uppeldis- og menntunarskilyrði og að hagsmunir nemenda skyldud ætíð hafðir í forgrunni og ekki yfirskyggðir af hagsmunum starfsstétta, öðrum hagsmunum sveitarfélaga, rekstraraðila eða stjórnvalda.

Í dag þegar kreppir að í rekstri sveitarfélaga er mikilvægt að missa ekki sjónar á þeirri sýn sem við höfum markað. Það er afar mikilvægt að sameiginlegur skilningur allra aðila sem að skólastarfi koma sé til staðar þegar við nú skipuleggjum fræðslumálin í þeirri þröngu stöðu sem uppi er í rekstri sveitarfélaganna.

Framhjá því verður ekki horft að til fræðslumála fer rúmlega helmingur af tekjum sveitarfélaga. Nú þegar þær dragast saman verður að velta hverri krónu í þeirri von að hana megi nýta enn betur en við höfum hingað til gert. Það verðum við að gera í fræðslumálum eins og í öðrum málaflokkum.
Eins og við höfum heyrt hér í dag þá eigum við öll það sameiginlega markmið að ungmenni þessa lands verði fyrir sem allra minnstum áhrifum af því efnahagslega ástandi sem hér ríkir nú. Það var reyndar ánægjulegt að heyra það að erfitt efnahagslegt umhverfi virðist ekki hafa þau neikvæðu áhrif á börn eins og við óttuðumst, þvert á móti virðast þau hamingjusamari en á hinu svokallaða góðærisskeiði. Ætli það segi ekki nóg til um þá forgangsröðun sem þá ríkti.

Rauður þráður í erindum fyrirlesara var að hið efnahagslega ástand megi ekki bitna á börnunum. Mikilvægi samvinnu og samráðs skipti öllu máli þegar kemur að því að forgangsraða til framtíðar. Þrátt fyrir að það sé tímafrekt og erfitt eins og síðasti fyrirlesari orðaði það. Mikilvægt er að við hugsum núna út fyrir kassann eða eins og einn fyrirlesarinn komst að orði nú þurfum við ekki fólk sem hugsar í beinum línum. Samræða og samstarf er leiðin hvort sem það er innan skólakerfisins, við nærsamfélagið eða sveitarstjórnir. Eða eins og fulltrúi Heimils og skóla orðaði svo vel, það þarf heilt þorp til að ala upp barn og því voru áhugaverðar hugmyndirnar sem komu fram bæði í fyrirlestrum og í umræðuhópum um aukna áherslu á sjálfboðaliðastarf í skólastarfi.

En ekkert breytir því að öllu skiptir að komið sé hreint fram --- að íbúum jafnt sem starfsmönnum sé sagður sannleikurinn um raunverulega stöðu í fjárhagslegu umhverfi fræðslustofnana. Aðeins þannig getur skapast sá skilningur á aðstæðunum sem nauðsynlegur er.

Við höfum heyrt að það sé tvennt ólíkt skóli fyrir alla eða menntun fyrir alla.
Frammistaða íslenskra nemenda í könnunum til dæmis PISA sé ekki í samræmi við þær fjárveitingar sem settar eru í fræðslumálin. Ég er svo heppin að hafa eignast fósturson frá Hong Kong sem bjó hjá okkur síðastliðið ár. Ég held að enginn Íslendingur myndi vilja skipta á því skólastarfi sem þar er og því sem við höfum alveg burtséð frá því hversu vel Hong Kong kemur út í PISA. Hann Tim minn hefur alla tíð verið í 40 -50 barna bekk og þar er einungis einn kennari. Heraga er haldið á börnunum og refsingar grimmilegri en við myndum sætta okkur við. Ég hef ávallt haft þá skoðun að hamingja barna ásamt innihaldsríku námi eigi að vera okkur leiðarljós í öllu starfi með börn.

Í máli ráðherra kom fram að erlendir sérfræðingar hafa ráðlagt okkur að standa vörð um grunnskólann umfram aðrar menntastofnanir þar sem þær hafa meiri burði en grunnskólinn til að bregðast við. Ráðherra greip boltann á lofti varðandi sjálfboðaliðastarf og hvatti til þess að slíkt yrði aukið. Hún var spurð um það hvort til greina kæmi að gefa sveitarfélögum tímabundið aukið svigrúm til dæmis varðandi viðmiðunarstundaskrá og lögbundinn tímafjölda. Svör hennar gáfu til kynna að ráðuneytið væri tilbúið til samræðna um tímabundið samráð vegna fækkunar kennslustunda. Standa bæri vörð um innihald námsins en um leið verðum við að ná endum saman. Hún sagði að kannski gæti verið betra að fækka kennslustundum heldur en að loka stofnunum.

Undanfarið hefur oft verið vitnað til hins mikla barna- og mannvinar H.C. Andersen og þá er þjóðinni helst hugleikið ævintýrið um Nýju fötin keisarans. Enginn skilur í dag af hverju við létum blekkjast af góðærisglýjunni undanfarin ár. Önnur saga er mér, sem sveitarstjórnarmanni sem þarf að vinna að fjárhagsáætlun fyrir næsta ár, ekki síður ofarlega í huga og það er sagan af Litlu gulu hænunni. Í dag er ljóst að við sem þjóð og samfélag verðum að draga saman seglin og spara. Undan því getum við ekki komist. Því skýtur það skökku við að í umræðunum heyrum vil alltof oft þetta sama sjónarmið og við lásum um í grunnskólanum forðum. Allir aðrir en bara ekki ég....

Ítarlega hefur verið fjallað um gildi og inntak kennaranáms og endurmenntunar. Fjallað var um það hvaða kennaramenntun er gagnleg í hinu síbreytilega umhverfi sem við búum við. Mikilvægi vandaðrar fagmenntunar á þessu sviði er okkur öllum ljós. Eitt orð hefur verið gegnumgangandi í öllum fyrirlestrum og umræðum á þessu þingi. Það er mannauðurinn sem býr í hinum frábæru starfsmönnum leik-, grunn- og tónlistarskólanna. Undir þetta sjónarmið getum við öll tekið enda hlýtur það ekki hvað síst að vera ykkur að þakka sem sinnið ungmennum þessa lands að það umrót sem ríkt hefur í þjóðfélaginu virðist sem betur fer hafa lítil áhrif á hamingju barna okkar. Fyrir það ber að þakka.

Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka starfsmönnum Sambands Íslenskra sveitarfélaga fyrir undirbúning ráðstefnunnar og ekki síður þeim fjölmörgu fyrirlesurum sem lögðu hér hönd á plóg.

Væntingar til samstarfs og samvinnu eru miklar, við sem hér erum getum öll lagt okkar lóð á vogarskálarnar til að skapa sem bestan grunn fyrir ungmenni þessa lands.

Grunn sem fleyta mun þjóðinni áfram til framtíðar litið.

Friday, April 24, 2009

Vígsla aðstöðuhúss við Grýluvöll 23. apríl 2009

Sumardagurinn fyrsti hefur ávallt verið mikill hátíðisdagur hér í Hveragerði. Hann er fyrsti dagur Hörpu, sem er fyrstur af sex sumarmánuðum í gamla norræna tímatalinu. Íslensk þjóðtrú segir að ef sumar og vetur frjósi saman boði það gott sumar og slíkt gerðist einmitt núna þetta árið.

Vonandi boðar þetta góða tíð fyrir okkur Hvergerðinga og þá ekki síst fyrir knattspyrnuiðkendur bæjarins sem stunda sína íþrótt utandyra og eru því háðari veðri og vindum en margur annar.

Það er ekki síst í ljósi þessa sem ákveðið var að ráðast í byggingu aðstöðuhúss við Grýluvöll. Aðstöðuhúsið sem hér var eyðilagðist og var rifið fyrir nokkrum misserum og án þess var aðstaðan hér við völlinn vægast sagt leiðinleg.

Bæjarstjórn ákvað á fundi sínum þann 29. apríl 2008 að ráðast í byggingu aðstöðuhúss við Grýluvöll og hefur því bygging þessa glæsilega húss tekið eitt ár svo til uppá dag.

Húsið sem er rúmir 200m2 að stærð er afar vandað og fallegt eins og gestir geta sannfærst um á eftir. Hönnun hússins var í höndum arkitektanna Hjördísar Sigurgísladóttur og Dennisar D. Jóhannessonar. Verkís hf. sá um gerð séruppdrátta og hafði eftirlit með verkinu. Guðmundur Arnar Sigfússon sá um alla jarðvinnu, Kári Arnórsson ehf. reisti ytra byrði hússins og Strandaverk ehf. innréttaði það og sá um frágang að öðru leyti.
Reist hefur verið kyndistöð norðan við húsið sem sér því fyrir heitu vatni og ættu því sturtur knattspyrnumanna að vera nægilega heitar fyrir heilt lið. Eitthvað sem mér skilst að hafi ekki verið í lagi á gamla staðnum. Starfsmaður verður ráðinn til starfa við húsið næstu 5 mánuði og mun hann hafa eftirlit með þeirri starfsemi sem hér fer fram. Menningar og frístundafulltrúi mun aftur á móti hafa yfirumsjón með rekstri og öðru því sem snýr að húsinu.

Ég vil nota þetta tækifæri og þakka öllum þeim fjölmörgu sem komu að byggingu hússins kærlega fyrir góð og fagleg störf.

Það er von bæjarstjórnar að aðstöðuhúsið muni efla knattspyrnumenn af báðum kynjum til dáða og að stórbætt aðstaða verði okkur öllum til hagsbóta.

Það er vilji bæjarstjórnar að aðstaða til íþróttaiðkunar verði með besta móti í Hveragerði. Efnahagsástandið hefur sett strik í okkar áætlanir en allra leiða verður leitað til að tryggja það að börn og unglingar í Hveragerði búi við bestu mögulegu skilyrði á þessu sviði.

Aldís Hafsteinsdóttir
Bæjarstjóri

Monday, April 20, 2009

Mætum, kjósum - tökum þátt !

Kæri íbúi í Suðurkjördæmi!
Borið hefur á því að fólki finnist ekki taka því að kjósa. Óánægja skilar sér í þeirri afstöðu að enginn flokkur sé verðugur atkvæðisins. Atburðir undangenginna mánuða hafa ýtt undir þessa afstöðu. En það að mæta ekki á kjörstað lýsir engri skoðun. Slíkt er einungis túlkað sem sinnuleysi og í versta falli sem leti kjósenda sem nenna ekki að rífa sig uppúr stofuhorninu til að velja sér fulltrúa á Alþingi. Afstaða og lýðræðisleg þátttaka felst í því að mæta, hvernig svo sem atkvæðið fellur. Einn mikilvægasti réttur hvers íbúa í lýðræðisþjóðfélagi er rétturinn til að velja landinu forystu. Fréttir erlendis eru til vitnis um það að kosningarétturinn er ekki allra.
Metum þau réttindi sem Íslendinum eru gefin - mætum og kjósum.

Skýr valkostur

Sjálfstæðisflokkurinn er skýr valkostur þeirra sem trúa því að frumkvæði einstaklinganna sé grunnur að nýrri uppbyggingu í landinu. Fjölga verður störfum því einungis þannig getum við byggt upp aftur þjóðfélag sem tryggt getur þá velferð sem við viljum sjá í þessu landi. Stærstu trén vaxa oft upp af litlum kvisti. Góð hugmynd getur áður en varir orðið að vinnustað sem veitir fjölda manns atvinnu. Tækifærin eru víða, ferðaþjónusta, landbúnaður, matvælaiðnaður allt býður þetta uppá mikla möguleika og áfram mætti telja. Sóknarfæri liggja einnig í fjölbreyttum möguleikum stóriðju en óvíða á Íslandi eru möguleikarnir betri á því sviði.

Nýting náttúrauðlinda
Í Suðurkjördæmi er uppspretta mikillar orku sem kappkosta ber að nýta í héraði. Ávallt ber þó að nýta auðlindir í fullri sátt við íbúa og umhverfi Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins var þessi stefna mörkuð með skýrum orðum og þannig er tryggt að Sjálfstæðismenn munu ekki standa að ákvörðunum um nýtingu orkuauðlinda sem valda munu aukinni mengun í byggð. Landsfundur ákvað einnig að náttúruminjaskrá sé sú stefna sem ber að virða þegar kemur að nýtingu náttúruauðlinda. Sjálfstæðismönnum er því treystandi til að taka ákvarðanir um nýtingu orkuauðlinda sem verða munu landsmönnum öllum til hagsbóta.

Aldís Hafsteinsdóttir
Bæjarstjóri Hveragerðisbæjar